Þróttur sló Selfoss út úr bikarnum

Selfyssingar féllu úr leik í 8-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu þegar liðið tapaði fyrir 1. deildarliði Þróttar á Valbjarnarvellinum í Reykjavík í kvöld, 3-0.

Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill en Þróttarar voru sprækari og sóttu meira. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Fyrsta mark leiksins kom á 5. mínútu síðari hálfleiks þegar Oddur Björnsson fór illa með varnarmenn Selfoss og skoraði.

Mark Þróttara kveikti loksins í Selfossliðinu sem settu í annan gír og sóttu stíft að marki Þróttar. Joe Tillen fór illa með dauðafæri og Moustapha Cissé átti skot í stöngina.

Annað mark Þróttara á 72. mínútu var því þvert gegn gangi leiksins en þar var Oddur Björnsson aftur á ferðinni. Brotið var á Babacar Sarr í aðdraganda marksins en dómari leiksins, Þóroddur Hjaltalín jr. var ekki sammála og spjaldaði Babacar fyrir mótmæli.

Eftir annað mark Þróttar var allur vindur úr Selfyssingum og heimamenn bættu þriðja markinu við á 80. mínútu en þar var að verki varamaðurinn Andri Gíslason. Andri slapp einn innfyrir og skoraði af stuttu færi eftir að Ismet Duracak hafði varið skot út í teiginn.

Fyrri greinNýtt íslenskt leikrit í Sögusetrinu
Næsta greinHlynur lék á 19 höggum undir pari