Fótboltagolf nýtur sívaxandi hylli hér á landi en eini völlurinn sem hægt er að stunda þessa íþrótt á landsbyggðinni er í Hrunamannahreppi, tæpa 4 km sunnan við Flúðir.
Fótboltagolfvöllurinn var opnaður í júní í fyrra og hefur allt frá opnun notið mikilla vinsælda, til að mynda hefur karlalandsliðið í handbolta tekið hring á vellinum. Völlurinn, sem ber heitið Markavöllur er í eigu ferðaþjónustubændanna Magnúsar Páls Brynjólfssonar og Rutar Sigurðardóttur en þau reka einnig bændagistingu í Dalbæ í Hrunamannahreppi.
Markavöllur er 18 holu fótboltgolfvöllur og eru reglurnar einfaldar; til að koma boltanum ofan í holuna þarf að nota fæturna í sem fæstum “höggum”. Par vallarins er 72 högg en vallarmetið er 54 högg.
Keppt á heimsmeistaramótum erlendis
Berglind Magnúsdóttir er starfsmaður á fótboltagolfvellinum. Hún segir að áður hafi verið stundaður kúabúskapur á bænum og túnin nýtt til grasræktar. „Svo var ekki verið að nota túnið og mér fannst vanta einhverja afþreyingu fyrir alla. Ég heyrði fyrst af fótboltagolfi fyrir 7-8 árum þannig við ákváðum að kýla bara á þetta.“
Þó að Markavöllur sé eini slíki völlurinn hér á landi er um að ræða vinsæla íþrótt víða um heim. „Þetta er búið að vera vinsæl íþrótt úti heimi í tíu ár og er meðal annars keppt í heimsmeistaramótum. Þetta er mjög vinsælt sport í Hollandi og Þýskalandi. En okkur vantar einhverja til að keppa fyrir Íslands hönd á svona mótum og það væri mjög gaman að geta búið til lið.“
Sömu reglur og í golfi
Eins og áður segir gilda sömu reglur í fótboltagolfi og í hefðbundnu golfi nema þeir sem taka þátt þurfa ekki að vera með golfkerruna í eftirdragi. Berglind segir að það sem sé skemmtilegast við fótboltagolfið sé að allir geta verið með. „Við höfum verið að sjá að börnin eru að vinna feður sína og það geta allir verið með, alveg óháð aldri og getu. Maður þarf ekki að vera góður í fótbolta til að vera góður í fótboltagolfi. Það sem þarf er að vera með lítið loft í boltanum og miða á holuna.“
Afgreiðslutíminn ekkert heilagur
Viðtökur fólks við fótboltagolfinu hafa verið mjög góðar. „Það var algjör sprengja í aðsókn um verslunarmannahelgina og voru hátt í 100 manns inn á vellinum þegar mest var og boltarnir við það að klárast. Við vorum líka einstaklega heppin með veður,“ segir Berglind.
Það fer eftir veðri hvað veðri hvað Markavöllur verður opinn lengi fram á haustið en afgreiðslutíminn er á milli 13 og 16 alla daga. „En ef fólk er á ferðinni getur það komið við og bankað upp á hjá okkur og við förum með þeim út á völl. Þannig að opnunartími er ekkert heilagur,“ segir Berglind að lokum.