„Þurfum að finna Selfosshjartað aftur“

„Einbeitingarleysi, enn og aftur,“ sagði Sævar Þór Gíslason, fyrirliði Selfoss, eftir leikinn gegn KR í Pepsi-deild karla í kvöld.

„Við ætluðum að reyna að koma á þá marki snemma en það gekk ekki og enn eina ferðina fáum við á okkur mark úr hornspyrnu. Það er ekkert nema einbeitingarleysi, enn og aftur. Það er ******* erfitt að fá á sig mark úr föstum leikatriðum í hverjum einasta leik. Það gengur bara ekki,“ sagði fyrirliðinn svekktur.

„Við erum ekki að nýta færin okkar og um leið og við fáum á okkur mark þá brotnar liðið. Það verður einhver pirringur innan liðsins þegar við fáum á okkur mörk, af því að menn eru ekki með einbeitinguna í lagi. Við reynum að halda áfram en fáum alltaf annað markið í andlitið.“

Nú eru tíu dagar í næsta leik hjá Selfoss og Sævar segir að liðið gefist ekki upp og menn hafi góðan tíma til að hugsa sinn gang. „Við þurfum að finna Selfosshjartað aftur.“

Fyrri greinSelfoss-KR 0-3
Næsta grein„Rosalegur heiður fyrir mig“