Selfoss mætir Fram í undanúrslitum bikarkeppni karla í handbolta á föstudagskvöldið, þann 9. mars kl. 19:30 í Laugardalshöllinni.
„Við höfum verið að spila vel í deildinni en okkur hefur stundum vantað stöðugleika í bikarnum. Við vorum heppnir að vinna Þrótt í 8-liða úrslitunum og nú erum við að fara að mæta Fram sem vann FH mjög sannfærandi. Auðvitað berum við virðingu fyrir andstæðingnum en við ætlum okkur sigur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, á blaðamannafundi í dag.
„Stemmningin er frábær á Selfossi, við erum alltaf með fullt hús og maður finnur að það er mikill hugur í fólkinu. Það verður pottþétt alveg pakkað í stúkunni frá okkar fólki. Við þurfum að mæta í þetta verkefni með sjálfstraust og klárir í allt. Framararnir eru góðir,“ sagði Patrekur ennfremur.
Selfyssingar fóru síðast í undanúrslit bikarkeppninnar árið 2013 en 25 ár eru síðan liðið komst í úrslitaleikinn fræga sem tapaðist gegn Val.
Á föstudaginn verður upphitun í Hótel Selfossi og hefst hún kl. 16:00. Fólk er hvatt til að mæta snemma því að þjálfarar liðsins munu koma og tala við stuðningsmenn, boðið verður uppá andlitsmálningu fyrir börnin og stuðningsmannasveitin Skjálfti mun æfa söngva. Sætaferðir verða í boði Guðmundar Tyrfingssonar frá Hótel Selfoss kl. 17:30 og er takmarkað sætaframboð í sætaferðirnar.
Miðasala á leikinn er í fullum gangi í verslun TRS á Selfossi og Bílaborg, Stórhöfða 26 í Reykjavík og aðeins örfáir miðar eftir. Þeir sem eiga frátekna miða eru hvattir til þess að sækja þá sem fyrst í TRS.