„Þurfum kraftaverk“

Selfoss missti niður unninn leik á síðustu fimmtán mínútunum þegar liðið tapaði 23-24 fyrir Gróttu í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Sæti í umspili N1-deildarinnar er nú í órafjarlægð.

„Við spiluðum fínan varnarleik allan tímann en vorum hugmyndasnauðir í sóknarleiknum í seinni hálfleik. Það er búið að vera svona í síðustu leikjum, vörnin hefur verið að smella en sóknarleikurinn er að fella okkur. Þetta er bara búið hjá okkur núna nema allt gangi upp, en ég hef litla trú á því. Grótta fer ekki að tapa fyrir Fjölni aftur. Við þurfum kraftaverk til þess að það fari að gerast,“ sagði svekktur fyrirliði Selfoss, Hörður Bjarnarson, í samtali við sunnlenska.is í leikslok.

Leikurinn var jafn fyrsta korterið en með frábærum varnarleik náðu Selfyssingar að byggja upp fimm marka forskot og staðan var 15-10 í hálfleik.

Í síðari hálfleik syrti fljótlega í álinn. Grótta tók frumkvæðið í leiknum en Selfyssingar leiddu ennþá, 18-17, þegar fimmtán mínútur voru eftir. Þá var eins og Selfossliðið væri orðið uppiskroppa með hugmyndir í sóknarleiknum og gestirnir gengu á lagið.

Jafnt var á flestum tölum síðustu tíu mínúturnar og Selfyssingar héldu áfram að spila ágæta vörn en sóknirnar nýttust illa og Grótta var alltaf á undan að skora. Selfyssingar fengu möguleika á að jafna í stuttri lokasókn en einn Gróttumanna braut þá af sér með ásetningi þegar hálf sekúnda var eftir og Selfoss fékk aukakast sem nýttist ekki. Reyndar var varnarveggur Gróttu hálfu feti fyrir innan sex metra línuna svo að Selfyssingar hefðu átt að fá vítakast í kjölfarið en dómarar leiksins voru ekki með augun hjá sér.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Matthías Örn Halldórsson og EInar Pétur Pétursson skoruðu 5, Gústaf Lilliendahl 3, Sigurður Már Guðmundsson 2 og þeir Hörður Bjarnarson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu sitt markið hvor.

Helgi Hlynsson varði 18/1 skot og var með 43% markvörslu.

Fyrri greinSkaftfellingamessa í Breiðholtskirkju
Næsta greinVeðurguðir og Skímó á Sunnlendingaballi