Þuríður Guðjónsdóttir hefur gert tveggja ára samning við handknattleiksdeild Selfoss. Þuríður er uppalin á Selfossi en spilaði síðustu tvö keppnistímabil með Fylki við góðan orðstír.
Þuríður er gríðarlega öflug skytta og varnarjaxl hinn mesti en hún hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands og er skilgetið afkvæmi selfysska handboltaskólans, eins og það er orðað í fréttatilkynningu frá stjórn deildarinnar..
Handknattleiksdeild Selfoss fagnar því að Þuríður hafi ákveðið að ganga til liðs við félagið að nýju og væntir mikils af henni sem og liðsfélögum næsta vetur.