„Ég er glöð og ánægð með skráninguna hjá HSK. Ég átti ekki von á þessum fjölda. Við erum að leggja í hann og sumar fjölskyldur eru lagðar af stað héðan austur á Egilsstaði.“
Þetta segir Guðrún Tryggvadóttir, formaður landsmótsnefndar Héraðssambandsins Skarphéðins og staðgengill framkvæmdastjóra HSK í viðtali á heimasíðu UMFÍ.
140 ungmenni á aldrinum 11-18 ára frá HSK eru skráð á Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Þetta er næstum þrisvar sinnum fleiri þátttakendur en komu frá HSK til Egilsstaða þegar mótið var haldið þar árið 2011.
Spurð að því hver ástæðan sé fyrir svo góðri þátttöku segir Guðrún: „Við erum landsbyggðarlið og látum ekki vegalengdir stöðva okkur. En viðhorfið hér er það að ef barnið þitt vill fara á Unglingalandsmót þá fara foreldrarnir með. Það skiptir engu hvort barnið er skráð í eina grein eða fleiri. Ein grein er nóg til að fara af stað.“
Guðrún bætir við að ungmennafélagsandinn hafi ávallt verið góður innan HSK og margir spenntir fyrir mótum á borð við Unglingalandsmóti UMFÍ.