Líkt og undanfarin ár voru metaskrár Héraðssambandsins Skarphéðins í frjálsíþróttum uppfærðar í öllum flokkum frá 11 ára aldri, bæði innan- og utanhúss. Einnig var afrekaskrá fyrir fatlaðra uppfærð.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja voru samtals 145 HSK met sett á síðasta ári. Fatlaðir settu fimm met, keppendur 11 – 22 ára settu 79 met, keppendur í karla- og kvennaflokkum settu fjögur met og keppendur í öldungaflokkum settu 57 met. Nokkur þessara meta eru einnig landsmet í viðkomandi flokki.
Dagur Fannar Einarsson Selfossi, keppandi í 16-17 ára flokki, setti flest HSK met á árinu. Hann setti 21 einstaklings HSK met og setti auk þess átta boðhlaupsmet með félögum sinnum, eða samtals 29 met. flokki. Sindri Freyr Seim Sigurðsson úr Umf. Heklu, sem einnig keppir í 16-17 ára flokki, kom næstur með samtals 13 met.
Álfrún Diljá Kristínardóttir keppandi Selfoss í 13 ára flokki var svo með 11 HSK met. Hún setti flest landsmet HSK keppenda á árinu, eða fimm talsins.
Ólafur Guðmundsson Selfossi setti flest HSK met í öldungaflokkum, en hann setti 16 met á árinu í flokki 50 – 54 ára. Næstir kom frændurnir úr Þjótanda, þeir Sigmundur Stefánsson og Jón M. Ívarsson, en þeir settu báðir átta HSK met í flokki 70 – 74 ára.
Ólafía Ósk Svanbergsdóttir Suðra var sú eina sem setti HSK met í flokkum fatlaðra á árinu, en hún setti fimm HSK met í flokki F 35-38.
HSK metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK meta sem sett voru á síðasta ári, má nálgast á vef HSK.