165 héraðsmet sett á síðasta ári

Sindri Freyr Seim Sigurðsson á sprettinum á Unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn síðasta sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppendur á sambandssvæði Héraðssambandsins Skarphéðins settu 165 HSK-met í frjálsum íþróttum, innanhúss og utanhúss, á síðasta ári. Sindri Freyr Seim Sigurðsson, setti flest met á árinu.

Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, heldur utan um metaskrárnar í öllum flokkum frá 11 ára aldri, bæði innan- og utanhúss. Einnig var afrekaskrá fyrir fatlaðra uppfærð á árinu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja voru samtals 165 HSK met sett á síðasta ári. Fatlaðir settu eitt met, keppendur 11–22 ára settu 108 met, keppendur í karla- og kvennaflokkum settu fimmtán met og keppendur í öldungaflokkum settu 41 met. Nokkur þessara meta eru einnig landsmet í viðkomandi flokki.

 

Sindri Seim úr Umf. Heklu og keppandi í 15 ára flokki setti flest HSK met á árinu. Hann setti 30 einstaklings HSK met á árinu og setti auk þess sjö boðhlaupsmet með félögum sinnum, eða samtals 37 met.

Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, keppandi í 16-17 ára flokki, kom næstur með 30 met. Hann setti 19 einstaklings HSK met og setti auk þess 11 boðhlaupsmet með félögum sínum.

Eva María Baldursdóttir Selfossi, sem keppti í 15 ára flokki, setti samtals fjórtán HSK met á árinu.

Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi, keppandi í 20 – 22 ára flokki, setti flest HSK met í fullorðinsflokki, en hún setti fimm met í kvennaflokki og níu met að auki í sínum aldursflokki.
 
Sigmundur Stefánsson, keppandi Þjótanda, setti flest met í öldungaflokkum, en hann setti 11 met á árinu í flokki 70-74 ára. Næstur kom Yngvi Karl Jónsson Garpi með 10 met í flokki 55 – 59 ára.
 
Hulda Sigurjónsdóttir Suðra var sú eina sem setti HSK met í flokkum fatlaðra á árinu, en hún bætti metið í sleggjukasti í flokki F20.
 
HSK metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK meta sem sett voru á síðasta ári, má nálgast á vef HSK.
Fyrri greinViðvörunin orðin græn: Hríðarlægðin hittir ekki á landið
Næsta grein40,2% íbúa Mýrdalshrepps eru erlendir ríkisborgarar