Stefán Ragnar biðst afsökunar

Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði karlaliðs Selfoss í knattspyrnu, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna atviks sem varð í leik KA og Selfoss í Lengjubikarnum um helgina.

Á 56. mínútu leiksins fór Elvar Árni Aðalsteinsson, framherji KA, í Vigni Jóhannesson, markvörð Selfyssinga, eftir að Vignir hafði handsamað boltann. Stefán Ragnar brást illa við og skallaði Elvar Árna. Fotbolti.net greinir frá þessu.

„Ég harma mjög atvikið sem gerðist í leiknum gegn KA um helgina. Ég missti stjórn á skapi mínu og brást ekki rétt við. Í morgun hringdi ég í Elvar Árna og bað hann afsökunar. Við áttum gott samtal og ég vil þakka honum skilninginn,“ segir Stefán Ragnar í yfirlýsingu sinni.

„Um leið vil ég biðja alla er málið varðar; hvort sem það eru ungir krakkar að æfa á Selfossi eða í öðrum félögum og líta upp til eldri leikmanna, aðstandendur, knattspyrnuáhugamenn eða liðsfélagar mínir innilega afsökunar. Ég brást á mikilvægum tímapunkti í leiknum og mun draga lærdóm af því.“

Að sögn Gunnars Rafns Borgþórssonar, þjálfara karlaliðs Selfoss, hefur Stefán rætt við forráðamenn og þjálfara Selfossliðsins og er málinu lokið af hálfu deildarinnar. Stefán hefur einnig beðið liðsfélaga sína afsökunar.

Fyrri greinInnbrotsþjófur athafnaði sig á meðan íbúarnir sváfu
Næsta grein„Hér er háborg íslenskrar hrossaræktar“