Ægir og KFR töpuðu leikjum sínum í 2. og 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Ægir heimsótti Aftureldingu í Mosfellsbæ og lokatölur þar urðu 2-0. Heimamenn komust yfir á 18. mínútu og bættu svo öðru markinu við í upphafi síðari hálfleiks.
Í Akraneshöllinni mættust KFR og Kári. Leikurinn var markalaus alveg þar til á lokamínútunum en Káramenn skoruðu tvö mörk á síðustu sex mínútum leiksins og sigruðu 2-0.
Ægir er áfram í 10. sæti 2. deildarinnar með 7 stig en KFR er í 6. sæti 3. deildarinnar með 10 stig.