Lið Selfoss í 2. flokki karla er komið áfram í bikarkeppni KSÍ eftir frábæran 6-0 sigur á Grindavík en leikið var á grasi í Þorlákshöfn í gærkvöldi.
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og einnkendist leikurinn af mikilli hörku. Selfyssingar voru þó ívið sterkari og pressuðu stíft á aðkomuliðið. Eitthvað varð undan að láta og á 36. mínútu skoraði Arilíus Óskarsson af stuttu færi og kom heimaliðinu í 1-0.
Á 42. mínútu stakk Gunnar Bjarni Oddsson varnarmenn Grindavíkur af og afgreiddi boltann snyrtilega í netið, 2-0.
Í seinni hálfleik réðu Selfyssingar lögum og lofum og mörkin komu á færibandi. Á 63. mínútu kom Gunnar Bjarni heimamönnum í 3-0 eftir gott skot úr teignum. Arilíus bætti við sínu öðru marki á 64. mínútu eftir frábært samspil og Jökull Hermannsson skoraði fallegt mark á 68. mínútu og kom Selfoss í 5-0.
Gunnar Bjarni fullkomnaði síðan þrennu sína á 80. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi í teignum. Góður 6-0 sigur heimamanna staðreynd í verðurblíðunni í Þorlákshöfn.
Selfoss mætir Þór Akureyri í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar á JÁVERK vellinum 26. júní.