Alls var 21 héraðsmet met sett á frjálsíþróttamótinu Gaflaranum sem haldið var í Hafnarfirði á dögunum. Þar með hafa 77 HSK met verið sett innanhúss í flokkum 11 ára upp í fullorðinsflokka í ár.
Flest metin voru sett í 200 og 300 metra hlaupum.
Í flokki 11 ára stráka var HSK metið í 200 metra hlaupi þríbætt. Eyþór Birnir Stefánsson hljóp í sínum riðli á 36,97 sek, Þórbergur Egill Yngvason hljóp svo á 34,36 sek í næsta riðli og Halldór Halldórsson bætti um betur og hljóp á 32,24 sek. síðar í sömu keppni.
Í 300 metra hlaupi stráka 12 ára bætti Sigurjón Reynisson ársgamalt met Sæþórs Atlasonar þegar hann kom í mark á 48,77 sek. Daði Kolviður Einarsson hljóp svo á 48,76 sek og bætti nokkra mín. gamalt met sveitunga síns. Árangur þeirra félaga var einnig met í 13 ára flokki. Sebatian Þór Bjarnason hljóp svo í 13 ára flokki á 42,38 sek. og bætti því met Daða. Sebastian setti einnig met í langstökki í 13 ára flokki, en hann stökk 5,48 metra og bætti ársgamalt met Sindra Freys Seim Sigurðssonar um 2 sentimetra.
Sindri tók þátt í mótinu og setti HSK met í 14 ára flokki í 300 m hlaupi, hljóp á 39,56 sek og bætti rúmlega ársgamalt met Dags Fannars Einnarssonar um 2,27 sek. Dagur Fannar setti tvö met á mótinu, hann bætti 26 ára gamalt met Jóhanns Hauks Björnssonar í 300 metra hlaupi í 14 og 15 ára flokkum. Dagur hljóp á 38,76, en gamla metið var 40,3.
Í stúlknaflokki 11 ára var metið í 200 metra hlaupi þríbætt, líkt og hjá strákunum. Kolbrún Karitas Gunnarsdóttir hljóp á 36,35 og Eydís Arna Birgisdóttir kom í mark í sínum riðli á 33,14 sek., en þær eru báðar 10 ára. Þórhildur Arnarsdóttir keppti í 11 ára flokki síðar á mótinu og bætti um betur þegar hún kom í mark á 32,14 sek.
Met Heiðdísar Lilju Erlingsdóttur var tvíbætt í 300 m hlaupi 12 ára, Rebekka Georgsdóttir skeiðaði í mark á 53,32 og Karolína Helga Jóhannsdóttir bætti metið í sínum riðli, hljóp á 50,12 sek. Árangur Karolínu er einnig met í 13 ára flokki, en Eva Maria Baldursdóttir átti metið í þeim flokki.
Loks bætti Birta Sigurborg Úlfarsdóttir metið í 300 metra hlaupi í 14 ára flokki, hljóp á 46,74 sek. Valgerður Einarsdóttir átt metið, hljóp í fyrra á 48,20 sek.
Sannarlega glæsilegur árangur hjá krökkunum. Uppfærð HSK metaskrá er á www.hsk.is og heildarúrslit mótsins má sjá á www.fri.is.