21 milljón króna í covid-styrki á Suðurlandi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Mennta- og barnamálaráðherra hefur úthlutað 450 milljónum króna til íþróttahreyfingarinnar vegna tekjutaps af völdum kórónuveirufaraldursins.

Stærstu fjárhæðunum er úthlutað til sérsambanda og héraðssambanda, þannig fær HSK rúmlega 12,1 milljón króna í sinn hlut en samtals koma tæplega 20,8 milljónir króna á Suðurland.

Deildir Ungmennafélags Selfoss fá samtals rúmlega 7,3 milljónir króna, þar af fær knattspyrnudeildin 3,6 milljónir og handknattleiksdeildin 2,8 milljónir. Fimleikadeildin fær rúmlega 500 þúsund krónur og frjálsíþróttadeildin rúmlega 250 þúsund krónur.

Knattspyrnudeild Hamars fær rúmlega 1,2 milljónir króna og körfuknattleiksdeild Hamars rúmlega 100 þúsund krónur.

Sambærileg úthlutun átti sér stað vorið 2020 og árið 2021 runnu 100 milljónir króna til íþrótta- og tómstundafélaga vegna viðburða og til sérstakra verkefna sem talin voru brýn fyrir starfsemi viðkomandi félaga. Nú er um að ræða lokaúthlutun stjórnvalda með það að markmiði að viðhalda öflugu íþróttastarfi á landinu.

Úthlutunin byggir á tillögum vinnuhóps Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands út frá skilyrðum mennta- og barnamálaráðuneytisins. Skilyrði stuðnings var tekjutap við það að fella tímabundið niður starfsemi eða kostnaðarauki vegna opinberra sóttvarnaráðstafana.

Fyrri greinYfirborð Ölfusár hækkar vegna ísstíflu
Næsta greinStíflan í Ölfusá stækkar