Líkt og undanfarin ár voru metaskrár HSK í frjálsíþróttum uppfærðar í öllum flokkum frá 11 ára aldri, bæði innan- og utanhúss. Alls voru 220 HSK met voru sett á síðasta ári, 83 met voru sett innanhúss og 137 utanhúss.
Að sögn Engilberts Olgeirssonar, framkvæmdastjóra HSK, voru metin óvenjumörg og talsvert fleiri en undanfarin ár, en t.a.m. voru 157 HSK met sett árið 2023.
Keppendur 11–22 ára settu 96 met, keppendur í karla- og kvennaflokkum settu fjögur met, keppendur í flokkum 30 ára og eldri settu 115 met og keppendur í fötlunarflokkum settu fimm met. Fjörutíu þessara meta eru einnig landsmet í viðkomandi flokki.
Bryndís Embla Einarsdóttir Umf. Selfoss, keppandi í 15 ára flokki setti flest met í yngri aldursflokkum og upp í fullorðinsflokk, en hún setti 30 HSK met á árinu í fjórum flokkum og voru níu þeirra jafnframt Íslandsmet. Helga Fjóla Erlendsdóttir úr Garpi, einnig keppandi í 15 ára flokki, setti 21 HSK met í fimm aldursflokkum og eitt þeirra var landsmet. Næst kom svo Andri Már Óskarsson, 11 ára keppandi úr Umf. Selfoss, en hann setti samtals 14 HSK met í fjórum aldursflokkum og systir hans Anna Metta Óskarsdóttir keppandi Selfoss í 14 ára flokki kom þar á eftir með átta HSK met í fjórum flokkum. Bæði settu þau eitt landsmet á liðnu ári. Í flokkum fatlaðra setti Sigurjón Ægir Ólafsson úr Suðra fimm HSK met.
Í aldursflokkum 30 ára og eldri setti Ólafur Guðmundsson Selfossi samtals 53 HSK met á árinu. Fyrri hluta árs var það í flokki 50-54 ára, síðan í flokki 55-59 ára, en í eldri aldursflokkum gildir afmælisdagur keppenda. Árný Heiðarsdóttir sem lengst af hefur keppt fyrir Óðinn í Vestmannaeyjum, en gekk til liðs við Selfoss á árinu, setti 26 HSK met í flokki 65-69 ára. Fjórtán þessara meta voru einnig landsmet. Ágústa Tryggvadóttir Selfossi kom næst með 12 HSK met í flokki 40–44 ára og sjö þeirra voru einnig landsmet.
HSK metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK meta sem sett voru á síðasta ári, má nálgast á vef HSK.