Íþróttanefnd hefur úthlutað tæpum 23 milljónum króna úr Íþróttasjóði til 79 verkefna fyrir árið 2022. Sjö verkefni á sambandssvæði HSK hlutu styrk úr sjóðnum, samtals að upphæð 2,4 milljónum króna.
Hæsta styrkinn á Suðurlandi fær Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir sem vinnur að rannsóknarverkefni um andlega heilsu fimleikalandsliða Íslands í aðdraganda og í kjölfar keppni á Evrópumótinu 2022. Bergþóra hlaut 800 þúsund króna styrk til rannsóknarinnar.
Þá hlaut frjálsíþróttaráð 600 þúsund króna styrk til fræðslu og útbreiðslumála til að sporna við brottfalli unglinga úr frjálsum íþróttum.
Fimm félög fengu styrki á bilinu 150 til 200 þúsund til tækjakaupa og bættrar aðstöðu. Það eru Íþróttafélagið Gnýr á Sólheimum, Íþróttafélagið Dímon, Skotíþróttafélagið Skyttur, frjálsíþróttadeild Selfoss og Ungmennafélag Gnúpverja.
Umsóknarfrestur til að sækja um styrk úr Íþróttasjóði er til 1. október ár hvert. Upplýsingar um sjóðinn og úthlutanir eru á heimasíðu Rannís.