Verkefnasjóður Héraðssambandsins Skarphéðins úthlutaði 2,6 milljónum króna úr fyrri úthlutun sinni á þessu ári í vikunni. Hæstu styrkirnir fóru til fimleikadeildar Ungmennafélags Selfoss.
Alls bárust 35 umsóknir í sjóðinn en sjóðsstjórn ákvað á fundi sínum að veita að hámarki einn afrekstyrk á ári til hvers afreksmanns og það sama á við um styrki vegna landsliðsvals einstaklinga. Því verða ekki veittir styrkir í haust til þeirra einstaklinga sem fá styrki við fyrri úthlutun ársins.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja félags- og íþróttastarf á sambandssvæði Héraðssambandsins Skarphéðins.
Fimleikadeild Selfoss fékk samtals 900 þúsund krónur úr sjóðnum vegna þjálfaranámskeiða og landsliðsverkefna og handknattleiksdeild Selfoss fékk 490 þúsund krónur vegna landsliðsverkefna og þjálfaranámskeiða.
Þá fékk knattspyrnudeild Selfoss fékk 410 þúsund krónur vegna þjálfaranámskeiða og taekwondodeild Selfossi fékk 335 þúsund krónur vegna landsliðsverkefna og þjálfaranámskeiða. Júdódeild Selfoss fékk 225 þúsund krónur vegna landsliðsverkefna.
Auk þessara deilda fengu Golfklúbbur Selfoss, Hestamannafélagið Geysir, júdódeild Selfoss, Umf. Hrunamanna, Umf. Þjótandi og frjálsíþróttadeild Umf. Þórs styrki úr sjóðnum.