Átta HSK met voru sett á vinamóti Selfoss og KR í frjálsum íþróttum sem haldið var á Selfossi sunnudaginn 13. maí síðastliðinn.
Það bar helst til tíðinda að 39 ára gamalt met Jóns Birgis Guðmundssonar í 60 metra hlaupi var bætt á mótinu. Selfyssingurinn Jón Birgir hljóp 60 metrana á 7,8 sek árið 1979, þá 12 ára gamall og var það met í flokkum 12 ára – 22 ára, þar til nú.
Jón Birgir á enn metið í 12 og 13 ára flokki, en Sebastian Þór Bjarnason úr Umf. Selfoss bætti met hans í 14 og 15 ára flokkum, en hann hljóp á 7,96 sek. Met Jóns var tekið með handtímatöku. Miðað er við á 0,24 sek skilji á milli þegar tími er tekinn með rafmagnstímatöku. Því er þetta met hjá Sebastian.
Dagur Fannar Einarsson sem einnig keppir fyrir Umf. Selfoss hljóp 60 metrana á 7,41 sek. og bætti met Jóns Birgis í flokkum 16 – 17 ára, 18 – 19 ára og 20 – 22 ára. Dagur Fannar setti einnig nýtt HSK met í karlaflokki í 60 metra hlaupi, en hann bætti átta ára gamalt met Haraldar Einarssonar, bróður síns, um 0,01 sek.
Tvö HSK met voru svo sett í 300 metra hlaupi. Tómas Þorsteinsson Selfossi bætti sex ára gamalt met Styrmis Dan Steinunnarsonar í 13 ára flokki um 1,58 sek, en Tómas hljóp á 48,78 sek. Þá hljóp Eyþór Birnir Stefánsson Selfossi á 69,26 sek, sem er met í 11 ára flokki.