Aldursflokkamót HSK í frjálsum 11–14 ára var haldið í Selfosshöllinni í gær. Þetta var fyrsta mót ársins í frjálsum íþróttum.
Alls voru 50 keppendur frá sex aðildarfélögum HSK skráðir til leiks. Sérstaka athygli vakti að Umf. Hvöt í Grímsnesi sendi keppendur á mótið, en það hefur ekki gerst í áraraðir.
Í 11 ára flokki var keppt í fjórum greinum og þar varð Kara Kristín Lárusdóttir úr Dímon sigursælust, en hún vann þrjár greinar. Í öðrum flokkum var keppt í fimm greinum. Í 12 ára flokki vann Magnea Furuhjelm Magnúsdóttir úr Dímon fjórar greinar. Anna Metta Óskarsdóttir Selfossi vann fjórar greinar í 13 ára flokki og Helga Fjóla Erlendsdóttir Garpi vann þrjár greinar í 14 ára flokki.
Á mótinu voru í fyrsta skipti veitt verðlaun fyrir stigahæsta félag í hverjum aldursflokki fyrir sig, líkt og gert hefur verið á Íslandsmótunum undanfarin ár. Dímon vann stigabikarinn í 11 og 13 ára flokkum og Selfoss vann í flokkum 12 ára og 14 ára. Umf. Selfoss vann heildarstigakeppni mótsins með 265 stig, Dímon varð í öðru sæti með 188 stig og Þjótandi var í því þriðja með 98 stig.
Heildarúrslit má sjá á www.fri.is.