600 keppendur á fimleikamóti

Haustmót Fimleikasambands Íslands var haldið á Selfossi um síðustu helgi og er þetta fjölmennasta fimleikamót sem haldið hefur verið á landinu.

Alls tóku um 600 keppendur þátt í mótinu sem fram fór á laugardag og sunnudag. Selfyssingar sendu átta lið til leiks og Þór Þorlákshöfn tvö lið. Mótið var það fyrsta í röðinni í deildarkeppni úrvals- og 1.deildar og var keppt í fimm flokkum.

Selfyssingar voru sigursælir í 5. flokki en þar sigraði Selfoss HL4 með 21,05 stig og Selfoss HL5 varð í 2. sæti með 20,30 stig. Selfoss HL7 varð í 5. sæti með 19,05 stig og Þór í 9. sæti með 8,95 stig. Selfoss átti eitt blandað lið í þessum flokki og varð það í 2. sæti með 13,65 stig á eftir karlaliði Ármanns sem fékk 17,60 stig.

í 4. flokki voru sextán lið og þar sigraði Gerpla B með 21,35 stig. Selfoss varð í 8. sæti með 20,00 stig og Þór í 13. sæti með 16,50 stig.

Selfoss varð í 3. sæti í 3. flokki með 21,35 stig en Höttur sigraði með 22,20 stig.

Í 2. flokki sigraði lið Stjörnunnar með 38,30 stig en Selfoss HM3 varð í 3. sæti með 34,50 stig. Selfoss sendi einnig blandað lið til keppni. Það var eina liðið í sínum flokki og átti því sigurinn vísan með 30,45 stig.

Í 1. flokki áttu Selfyssingar eitt lið sem hafnaði í 5. sæti með 38,05 stig en Stjarnan 1 sigraði með 43,90 stig.

Fyrri greinUngmenni gripin með kannabis
Næsta greinMargfaldur heimsmeistari ráðinn á Selfoss