80 manns, börn og fullorðnir, tóku beltapróf hjá taekwondodeild Umf. Selfoss um helgina.
Allir sem tóku próf náðu beltum og röndum en samhliða beltaprófunum voru æfingabúðir. Nú nýverið breyttust áherslur varðandi beltaprófin. Framvegis verða þau þannig að eftir að rauðri rönd er náð á blátt belti þarf viðkomandi að taka þátt í æfingabúðum heila helgi til að eiga möguleika á að fá hærra belti. Fylgjast prófdómarar með öllum iðkendum og meta þá út frá færni, tækni, framkomu gagnvart öðrum iðkendum og háttarlagi.
Í æfingabúðunum um helgina náðu tveir Selfyssingar þessum áfanga en það eru þeir Sigurjón Bergur Eiríksson, sem fékk rautt belti og Daníel Fonseca sem fékk svarta rönd nr. tvö á rauða beltið sitt. Þá á Daníel bara eftir að fá eina svarta rönd til viðbótar áður en hann fær að reyna sig við svarta beltið.