87 ára keppandi í verðlaunasæti

Karl Gunnlaugsson stýrði fjölskyldugöngu á Miðfell í Hrunamannahreppi sumarið 2010. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

HSK-mótið í sveitakeppni í bridge var spilað á Flúðum 23. febrúar síðastliðinn og mættu sex sveitir til leiks og spiluðu allir við alla.

Keppnin var spennandi milli efstu sveita allt þar til í lokin. Sveit TM tryggði sér sigurinn með 71,74 stig, sveit MS varð í öðru sæti með 70,79 stig og sveit Karls Gunnlaugssonar, sem kallaði sig Kalli og kempur varð í þriðja sæti með 61,22 stig.

Meistararnir í TM sveitinni eru Kristján Már Gunnarsson, Runólfur Jónsson, Björn Snorrason og Pálmi Kristmannsson.

Þess má geta að Karl Gunnlaugsson á Varmalæk, sem verður 88 ára síðar á þessu ári, mætti með sveit eins og oft áður og var Gunnlaugur sonur hans m.a. í sveitinni. Þau eru óteljandi mótin sem Kalli hefur tekið þátt í á undanförnum áratugum í fjölmörgum íþróttagreinum. Það er magnað að keppandi hátt á níræðisaldri sé enn að berjast um sigurinn í keppni við þá bestu innan héraðs.

Heildarúrslit mótsins eru á www.hsk.is.

Fyrri greinLeitað að leka með lituðu vatni
Næsta greinBjörgunarsveitir kallaðar til leitar á Vatnajökli