Fulltrúar handknattleiksdeildar Umf. Selfoss hafa að undanförnu vakið athygli á því að völlur íþróttahúss Vallskóla uppfylli ekki reglur um löglega breidd handboltavalla og að brýn þörf sé á að endurnýja gólfefni í íþróttasalnum vegna meiðslahættu.
Málið var rætt á fundi bæjarráðs Árborgar í gær að beiðni Eggerts Vals Guðmundssonar, fulltrúa S-lista.
Í bókun sem samþykkt var á fundinum kemur fram að fulltrúar sveitarfélagsins hafa skoðað aðstæður og unnin hefur verið áætlun um kostnað við endurnýjun gólfefna. Þá hefur af hálfu sveitarfélagsins verið leitað eftir því við stjórnendur Fjölbrautaskóla Suðurlands að nýta megi íþróttahúsið Iðu fyrir handboltaæfingar og leiki, en ekki hefur verið fallist á þá málaleitan af hálfu FSu.
Ákveðið hefur verið að fulltrúar sveitarfélagsins fundi með fulltrúa aðalstjórnar Umf. Selfoss vegna málsins.
Ekki hefur komið fram beiðni frá Umf. Selfoss um að ráðist verði í þessar framkvæmdir á árinu en í vinnu vegna þriggja ára fjárfestingaráætlunar er gert ráð fyrir að farið verði í verkefnið á árinu 2013.
Ljóst er að kröfur handknattleiksdeildar snúast um stærra verkefni en einungis það að skipta um gólfefni, fara þarf í talsverða hönnunarvinnu vegna þess.