Selfoss tók á móti KR í 1. deild kvenna í körfubolta í Vallaskóla í kvöld. Það var á brattann að sækja hjá Selfyssingum enda liðin að berjast á sitthvorum enda stigatöflunnar.
KR skoraði fyrstu sjö stigin í leiknum en Selfoss tók þá á sprett og breytti stöðunni í 15-11. KR svaraði hins vegar fyrir sig og staðan var 18-24 að 1. leikhluta loknum. Selfoss minnkaði muninn í fjögur stig í upphafi 2. leikhluta en þá tóku KR-ingar völdin og náðu góðu forskoti fyrir hálfleik, 30-49.
Í seinni hálfleik réð KR lögum og lofum. Forskotið jókst mikið í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða leiddi KR 46-81. Selfoss hélt sjó á lokakaflanum en forskoti KR var aldrei ógnað og gestirnir sigruðu að lokum 69-104.
Valdís Una Guðmannsdóttir var stigahæst Selfyssinga með 20 stig, Perla María Karlsdóttir skoraði 11 og Sigríður Svanhvít Magnúsdóttir 10.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 5. sæti með 6 stig en KR er í 2. sæti með 12 stig.