Á leið á Ólympíuleikana

“Mér fannst þetta bara eitthvað svo spennandi hugmynd að ég hugsaði af hverju ekki,” sagði Karen Ýr Sæmundsdóttir, 24 ára Þorlákshafnarmær sem mun starfa sem sjálfboðaliði á Ólympíuleikunum í London í sumar.

Auglýsinguna um starfið sá Karen Ýr í gegnum ÍSÍ, en hún var send á öll sérsambönd innan sambandsins. Það tók 45 mínútur að svara umsókninni sem var mjög ítarleg, en það var bara byrjunin því í framhaldi af því fór Karen Ýr í viðtal í maí í fyrra og svarið fékk hún svo fyrr í vetur.

Um 240 þúsund manns sóttu um að verða sjálfboðaliðar á Ólympíuleikunum, en aðeins 70 þúsund komust að. Aðspurð sagðist Karen Ýr ekki vita hvort fleiri Íslendingar væru að fara sem starfsmenn.

Í vetur fór Karen Ýr á kynningarfund til Lundúna sem er hluti af undirbúningsferli fyrir ólympíuleikana. Haldið er eitt undirbúningsmót í hverri íþrótt til að prófa aðstæður og hvort allt ferlið virki svo hægt sé að lagfæra fyrir leikana til að allt gangi sem best.

Fyrir þessi æfingamót þarf sjálfboðaliða úr ákveðnum hópum. Bráðaliðar, tækniteymi og sérhæft íþróttateymi þurfa að mæta á þessi mót, en Karen Ýr er í tækniteyminu. “Mitt hlutverk felst í því að skrá upplýsingar og ég get verið fyrst til að vita niðurstöður,” segir Karen Ýr, ánægð með þetta spennandi starf.

Ólympíuleikarnir hefjast þann 27.júlí og standa til 12. ágúst. Karen Ýr segir það ekki komið á hreint hversu lengi hún verður þar við vinnu, eitthvað á bilinu 16 til 20 daga. Starfsmenn þurfa að mæta á þrennar æfingar í Lundúnum, en fyrir þá sem búa lengra frá, líkt og Karen Ýr, eru haldnir aukaæfingadagar í júní, en þá er skylda fyrir alla starfsmenn að mæta á þessar æfingar.

“Nei, ekkert sérstaklega, jú maður horfir nú alltaf á þetta” segir Karen Ýr um það hvort hún hafi fylgst lengi með Ólympíuleikum. Hún hefur sérstakan áhuga á badminton og hefur stundað þá íþrótt frá því hún var ung, og þjálfar nú u.þ.b. fimmtán börn og unglinga í Þorlákshöfn.

Karen Ýr sótti um að vera á svæði þar sem Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona mun keppa á leikunum sjálfum, en allt kom fyrir ekki. Svæðið þar sem Karen Ýr mun starfa á heitir ExCel og þar fer fram keppni í boxi, skylmingum, júdó, borðtennis, taekwondo, kraftlyftingum og glímu.

Fyrri greinÞórsarar lögðu Stjörnuna
Næsta greinOpna ábendingavef fyrir skólastefnu