Selfoss lagði Þrótt Vogum að velli 1-0 á Selfossvelli í dag í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu.
Leikurinn var jafn lengst af og markalaus allt fram á 88. mínútu. Selfyssingar fengu þá hornspyrnu og eftir mikinn darrðardans í vítateig Þróttar datt boltinn fyrir Adam Örn Sveinbjörnsson sem skaut í stöngina og inn.
Þetta var fyrsti leikur Selfoss í Lengjubikarnum en liðið er í riðli 2 ásamt Þrótti Vogum, KH, Augnabliki, Sindra og Kórdrengjum.
Næsti leikur Selfoss er föstudaginn 1. mars þegar KH kemur í heimsókn á Selfossvöll.