Adeyemo með þrennu í fyrsta leik

Jordan Adeyemo í Ægisbúningnum. Mynd/Ægir

Jordan Adeyemo var maður leiksins þegar Ægir heimsótti Augnablik í 1. umferð Lengjubikars karla í knattspyrnu í Fífuna í kvöld.

Írinn knái lék á als oddi framan af leik og hafði skorað þrennu eftir rétt rúman klukkutíma. Ægismenn komust yfir á 9. mínútu með marki frá Adeyemo og hann var svo aftur á ferðinni á markamínútunni, 0-2 í hálfleik.

Adeyemo kom Ægi svo í 0-3 á 62. mínútu en Hvergerðingurinn Júlíus Óli Stefánsson minnkaði muninn fyrir Augnablik fimm mínútum síðar. Sigur Ægis var ekki í hættu og Bjarki Rúnar Jónínuson innsiglaði hann endanlega með fjórða marki þeirra gulu á 89. mínútu.

Lokatölur 1-4 og Ægismenn kátir eftir fyrsta leik. Næsti leikur Ægis er gegn Ými á Leiknisvellinum eftir rúma viku en önnur lið í riðli-2 í B-deildinni eru Víðir, Víkingur Ó og Árborg.

Fyrri greinVerkföll boðuð í Hveragerði og Ölfusi
Næsta greinÓvænt úrslit í nágrannaslagnum