Selfoss tók á móti ÍBV í Suðurlandsslag í úrvalsdeild kvenna í handbolta í Set-höllinni í dag. Eftir brösuga byrjun tóku Selfyssingar höndum saman og unnu frábæran sigur, 24-22.
Selfoss skoraði fyrstu tvö mörkin en eftir það voru þær í miklum vandræðum í sóknarleiknum og vörnin var ekki heldur sannfærandi. ÍBV jafnaði 4-4 og leiddi fram að leikhléi en þá var staðan 7-12.
Það var allt annað að sjá til Selfossliðsins í seinni hálfleiknum. Þær jöfnuðu 13-13 og eftir það var jafnt á flestum tölum upp í 22-22 þegar rétt tæpar tvær mínútur voru eftir. Selfoss skoraði síðustu tvö mörkin og sigraði 24-22.
Ágústa Tanja Jóhannsdóttir var frábær í marki Selfoss í dag og varði 18 skot. Mestu munaði þó um innkomu Jónu Margrétar Ragnarsdóttur, 42 ára aðstoðarþjálfara Selfoss, sem kom inná í seinni hálfleiknum í sínum fyrsta leik á Íslandsmóti í 11 ár. Jóna Magga gjörbreytti sóknarleik Selfyssinga, skoraði 3 mörk, sendi 5 stoðsendingar og ógnaði stöðugt með vinstri höndinni fyrir utan.
Þetta var lykilleikur fyrir bæði lið en eftir hann er Selfoss í 4. sæti deildarinnar með 11 stig en ÍBV í 7. sæti með 6 stig.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8/3 mörk, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir skoraði 4, Hulda Dís Þrastardóttir og Jóna Margrét 3, Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Adela Jóhannsdóttir, Hulda Hrönn Bragadóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Katla María Magnúsdóttir skoruðu allar 1 mark.