Önnur umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu hófst í dag. Ægir mætti KFS og Uppsveitir tóku á móti Reyni Sandgerði.
Ægir og KFS mættust á Leiknisvellinum í Breiðholti. Eftir markalausan fyrri hálfleik fengu Ægismenn vítaspyrnu á upphafsmínútum seinni hálfleiks og úr henni skoraði Stefan Dabetic eina mark leiksins. Ægir er því kominn í 32-liða úrslitin.
Það var síðan hörkuleikur á gervigrasinu á Selfossi þar sem 4. deildarlið Uppsveita mætti 2. deildarliði Reynis frá Sandgerði. Uppsveitamenn voru síst lakari aðilinn í leiknum en hvorugu liðinu tókst að skora í venjulegum leiktíma. Formið varð Uppsveitamönnum að falli í framlengingunni, því Reynir komst strax yfir og eftir 120 mínútna leik urðu lokatölurnar 0-4.
Annarri umferð bikarsins lýkur á mánudagskvöld en á laugardag verður stórleikur á Grýluvelli í Hveragerði þar sem Hamar tekur á móti liði Selfoss.