Ægir tryggði sér í dag sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu með góðum sigri á KFS úti í Vestmannaeyjum.
Fyrri hálfleikur var markalaus en í þeim síðari komu mörkin á færibandi. Stefan Dabetic kom Ægi yfir á 50. mínútu og á 64. mínútu skoraði Sigurður Óli Guðjónsson. Fimm mínútum síðar minnkaði KFS muninn í 1-2 en Ægismenn voru ekki hættir því Sigurður Óli bætti við öðru marki á 74. mínútu og Ómar Örn Reynisson tryggði Ægi svo 1-4 sigur á lokamínútunni.
Hamar heimsótti Hörð á Ísafjörð og þurfti nauðsynlega á sigri að halda fyrir baráttuna um 2. sætið í C-riðlinum. Það gekk eftir en Brynjólfur Þór Eyþórsson kom Hamri í 0-1 á 40. mínútu. Í seinni hálfleik röðuðu Hvergerðingar svo inn mörkum. Sam Malson skoraði þrennu, Brynjólfur bætti við öðru marki sínu og þeir Ísak Leó Guðmundsson og Bjarki Rúnar Jónínuson skoruðu sitt markið hvor. Lokatölur 0-7.
Ægir er og verður í efsta sæti D-riðilsins þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið er nú með 26 stig en Elliði og KFR berjast um 2. sætið.
Í C-riðlinum er Hamar nú með 24 stig í 2. sæti, einu stigi meira en Berserkir þegar tvær umferðir eru eftir.