Ægismenn náðu í sterkt stig á útivelli í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir heimsóttu Njarðvík á gervigrasvöllinn í Reykjanesbæ.
Ivo Braz kom Ægi yfir strax á 3. mínútu eftir góða sókn og sendingu frá hægri frá Bjarka Rúnari Jónínusyni. Ægismenn héldu áfram að sækja en Njarðvíkingar svöruðu fyrir sig á 30. mínútu eftir snarpa sókn.
Á 43. mínútu komust Ægismenn aftur yfir þegar Anton Fannar Kjartansson sendi boltann fyrir markið og hann sveif í netið. Tveimur mínútum síðar slapp Cristofer Rolin í gegnum Njarðvíkurvörnina þar sem fyrirliði Njarðvíkur braut á honum og hlaut réttilega að launum rautt spjald.
Staðan var 1-2 í hálfleik og Ægismenn spiluðu manni fleiri allan seinni hálfleikinn. Þeir náðu ekki að nýta liðsmuninn og það voru Njarðvíkingar sem áttu lokaorðið en þeir jöfnuðu metin á 56. mínútu.
Þrátt fyrir ágætar sóknir tókst Ægi ekki að skora sigurmarkið og úrslitin urðu 2-2 jafntefli.
Eftir tvær umferðir er Ægir í 8. sæti með 1 stig en Njarðvík í 6. sæti með 2 stig. Liðin í kring um þau eiga flest leik til góða en 2. umferðinni lýkur á laugardaginn.