Ægir og Selfoss sigruðu bæði í leikjum sínum í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Liðin hafa unnið báða leiki sína í deildinni hingað til.
Ægir fékk KF í heimsókn á grasið í Þorlákshöfn og þar fór leikurinn rólega af stað. Ægir fékk víti á 40. mínútu og úr því skoraði Sigurður Hrannar Þorsteinsson og staðan var 1-0 í hálfleik. KF jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks en Ægismenn voru sterkari á lokakaflanum og skoruðu tvisvar; Ágúst Karel Magnússon kom þeim yfir á 74. mínútu og í uppbótartímanum tryggði Brynjólfur Þór Eyþórsson Ægismönnum 3-1 sigur.
Selfyssingar fóru norður á Húsavík og mættu þar Völsungi. Fyrri hálfleikur var markalaus en á 63. mínútu skoraði Gonzalo Zamorano eina mark leiksins. Tíu mínútum síðar fékk Dagur Jósefsson að líta sitt annað gula spjald en manni færri héldu Selfyssingar fengnum hlut og fögnuðu sigri.
Ægir, Haukar og Selfoss eru einu liðin í deildinni sem hafa unnið báða leiki sína og eru með fullt hús á toppnum. Í næstu umferð mætast Haukar og Ægir á föstudagskvöldið og Selfoss fær KFA í heimsókn á laugardaginn.