Ægir og Selfoss byrja á sigri

Ágúst Karel Magnússon. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppni í 2. deild karla í knattspyrnu hófst í dag. Ægir og Selfoss léku bæði heimaleiki og náðu bæði að landa sigri.

Ægismenn sóttu Reyni heim á grasið í Sandgerði. Fyrri hálfleikur var markalaus en Ágúst Karel Magnússon kom Ægi yfir með góðu marki í upphafi seinni hálfleiks. Fimm mínútum síðar misstu Reynismenn mann af velli með rautt spjald og eftirleikurinn reyndist Ægismönnum þægilegur. Ágúst Karel tvöfaldaði forystuna á 66. mínútu og í uppbótartímanum innsiglaði Aron Fannar Hreinsson 3-0 sigur Ægis.

Selfyssingar lentu í basli með nýliða Kormáks/Hvatar. Það gekk lítið upp hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik og staðan var 0-0 í hálfleik. Þeir vínrauðu hresstust nokkuð í seinni hálfleiknum og á 70. mínútu skoraði Gonzalo Zamorano eina mark leiksins eftir að hann hafði tekið léttan snúning í miðjum vítateig Kormáks/Hvatar eftir fyrirgjöf Ívans Breka Sigurðssonar.

Það er leikið þétt í 2. deildinni í maímánuði en liðin spila fimm leiki í mánuðinum. Ægir tekur á móti KF næstkomandi laugardag og á sama tíma heimsækja Selfyssingar Völsung á Húsavík.

Fyrri greinGrýlupottahlaup 5/2024 – Úrslit
Næsta greinJafntefli í fyrsta leik Selfoss