Ægir og Uppsveitir heltast úr lestinni

Bjarki Rúnar Jónínuson sækir að marki KV í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ófarir sunnlensku liðanna í bikarkeppni KSÍ halda áfram en í dag féllu Ægir og Uppsveitir úr keppni í 1. umferðinni.

Ægir tók á móti KV á gervigrasinu á Selfossi. Ægismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og fengu nokkur ágæt færi áður en Atli Rafn Guðbjartsson kom þeim yfir í uppbótartímanum. Staðan var 1-0 í hálfleik en róðurinn þyngdist nokkuð hjá Ægi í seinni hálfleiknum, eftir að Bjarki Rúnar Jónínuson fékk að líta rauða spjaldið á 55. mínútu.

KV-menn jöfnuðu metin fimm mínútum síðar og á 75. mínútu varð Aron Fannar Hreinsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Ægismenn gáfust þó ekki upp og Jordan Adeymo tryggði þeim framlengingu með því að jafna 2-2 á 89. mínútu. KV tókst að tryggja ség sigurinn í framlengingunni, með marki fjórum mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 2-3.

Í seinni leik dagsins á Selfossvelli tóku Uppsveitir á móti Hvíta riddaranum frá Mosfellsbæ. Riddararnir gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik en staðan var orðin 0-4 í hálfleik. Mosfellingar skoruðu tvö mörk til viðbótar í seinni hluta seinni hálfleiksins og lokatölur urðu 0-6.

Eins og við greindum frá í gær er KFR eina sunnlenska liðið sem hefur tryggt sér sæti í 2. umferðinni, auk Selfyssinga sem sitja hjá í 1. umferð. Hamarsmenn eiga möguleika á að bætast í hópinn en þeir fá Skallagrím í heimsókn í Þróttheima á morgun kl. 14.

Fyrri greinKjartan sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ
Næsta greinHamar sýndi styrk sinn í lokin