
Það er mikil spenna í Lengjudeild karla í knattspyrnu en 20. umferð deildarinnar verður leikin um helgina. Leiktími helgarinnar hefur riðlast talsvert en veðurspáin fyrir föstudagskvöld og laugardag er ekki góð.
Ægismenn áttu að taka á móti Vestra í Þorlákshöfn á laugardaginn en leikurinn verður spilaður innanhúss, í Kórnum í Kópavogi kl. 15:00.
Þrátt fyrir spána munu Selfyssingar halda sínu striki og taka á móti Gróttu kl. 17:30 á föstudag á Jáverk-vellinum.
Lið Ægis er fallið niður í 2. deild en Selfyssingar eru í harðri fallbaráttu við fimm önnur lið, núna þegar þrjár umferðir eru eftir. Grótta er eitt þeirra og því ljóst að það verður mikið í húfi í rokinu og rigningunni á Selfossvelli á föstudagskvöldið.