Ægismenn töpuðu 2-3 gegn Reyni frá Sandgerði í hörkuleik í 3. deild karla í knattspyrnu í Þorlákshöfn í dag.
Elton Futura Barros, fyrrum leikmaður Selfoss, kom Reyni yfir á 9. mínútu leiksins en Atli Rafn Guðbjartsson jafnaði metin þremur mínútum síðar. Fjörið var ekki búið því aðeins tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið komust Reynismenn aftur yfir.
Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og staðan var 1-2 í leikhléi, en strax á 2. mínútu síðari hálfleiks jafnaði Anton Breki Viktorsson metin fyrir Ægismenn. Reynir skoraði sigurmarkið um miðjan seinni hálfleikinn og Ægismönnum tókst ekki að jafna í þriðja sinn í leiknum, þrátt fyrir ágætar tilaunir.
Ægismenn eru áfram í 9. sæti deildarinnar með 17 stig, tveimur stigum frá fallsæti, en Reynir er í hörkubaráttu um toppsætið og hefur 35.