Ægismenn eru komnir upp í 2. sætið í 3. deild karla í knattspyrnu eftir mikilvægan sigur á ÍH í Skessunni í Hafnarfirði í kvöld.
Fyrri hálfleikur var markalaus en fjörið byrjaði strax í seinni hálfleik. Ægir fékk vítaspyrnu á 47. mínútu og úr henni skoraði Nemanja Lekantic. Brynjólfur Þór Eyþórsson kom Ægi í 0-2 á 54. mínútu en tveimur mínútum síðar minnkuðu heimamenn muninn.
Alexander Aron Davorsson skoraði þriðja mark Ægis á 78. mínútu og það reyndist sigurmark leiksins en ÍH minnkaði muninn fjórum mínútum fyrir leikslok og þar við sat, 2-3.
Ægir hefur 35 stig í 2. sæti og á leik til góða á topplið Hattar/Hugins sem er með 38 stig. ÍH er hins vegar í bullandi fallbaráttu með 17 stig í 10. sæti.