Ægir lyfti sér aftur upp í 2. sætið í 2. deild karla í knattspyrnu í dag með 2-1 sigri á botnliði Magna á Þorlákshafnarvelli.
Það tók dálítinn tíma fyrir Ægi að finna leiðina að netmöskvum Magnamanna og það voru gestirnir sem voru fyrri til að skora. Magni fékk vítaspyrnu á 43. mínútu og skoraði úr henni, þannig að staðan var 0-1 í leikhléinu.
Ægismenn voru sterkari í seinni hálfleik og Cristofer Rolin jafnaði 1-1 á 52. mínútu. Það var síðan Dimitrije Cokic sem sem bjargaði stigunum þremur fyrir Ægi með sigurmarki sex mínútum fyrir leikslok.
Eftir þrettán umferðir er Ægir í 2. sæti með 28 stig, tveimur stigum á undan Þrótti, en Njarðvíkingar eru öruggir í toppsætinu með 37 stig.