Ægismenn fallnir – Svekkjandi tap á Skaganum

Dimitrije Cokic. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn eru fallnir úr Lengjudeild karla í knattspyrnu eftir 7-2 tap gegn Grindavík í kvöld. Á sama tíma tapaði Selfoss 1-0 gegn ÍA á Akranesi.

Leikur Grindavíkur og Ægis var í járnum í fyrri hálfleik, Grindvíkingar heilt yfir sterkari og þeir skoruðu tvívegis, þannig að staðan var 2-0 í hálfleik. Heimamenn gerðu síðan út um leikinn með tveimur mörkum á fyrstu fimm mínútum seinni hálfleiks en Brynjólfur Þór Eyþórsson náði að klóra í bakkann fyrir Ægismenn á 76. mínútu, 4-1. Grindavík jók forskotið aftur nánast í næstu sókn en Dimitrije Cokic skoraði annað mark Ægis sex mínútum fyrir leikslok. Leikurinn var þó alls ekki búinn því Grindavík skoraði tvö mörk á lokamínútunum og sigraði 7-2.

Leikur ÍA og Selfoss var jafn og spennandi, bæði lið fengu fín færi í fyrri hálfleik en ÍA komst í 1-0 á 37. mínútu eftir aukaspyrnu frá hægri þar sem Hlynur Jónsson var laus á fjærstöng og skallaði í netið. Þetta reyndist eina mark leiksins. Selfyssingar voru sterkari það sem eftir lifði leiks og sókn þeirra þyngdist enn frekar á síðustu tíu mínútunum eftir að Skaginn missti mann af velli með rautt spjald. Inn vildi boltinn ekki hjá þeim vínrauðu og Selfyssingar bíða nú eftir úrslitum úr leik Gróttu og Þróttar síðar í kvöld en þessi þrjú lið eru í harðri fallbaráttu ásamt Grindavík, Þór og Njarðvík, þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni.

Fyrri greinLína Björg ráðin byggðaþróunarfulltrúi
Næsta greinSelfoss leikur um 5. sætið