Knattspyrnufélagið Ægir í Þorlákshöfn sigraði í 4. deild karla í knattspyrnu en liðið lagði Elliða í úrslitaleik deildarinnar í Egilshöllinni í dag.
Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik en á 60. mínútu kom Garðar Logi Ólafsson Ægismönnum yfir og Stefan Dabetic tvöfaldaði forystuna tuttugu mínútum síðar. Ásgrímur Þór Bjarnason tryggði Ægi svo 3-0 sigur í uppbótartímanum.
Árangur Ægis í sumar var frábær en liðið tapaði aðeins einum leik, einmitt gegn Elliða í riðlakeppninni. Ægismenn eru því Íslandsmeistarar í 4. deild karla 2019 en Ægir og Elliði munu bæði leika í 3. deildinni næsta sumar.