Ægir þarf sigur á útivelli á móti toppliði Hattar/Hugins í lokaumferð 3. deildar karla í knattspyrnu til þess að tryggja sér sæti í 2. deildinni að ári.
Ægismenn hefðu getað tryggt sig upp í dag þegar þeir fengu KFG í heimsókn í Þorlákshöfn, en gestirnir sigruðu 1-2. Liðin eru því bæði með 38 stig í 2.-3. sæti fyrir lokaumferðina en Ægismenn eru með betra markahlutfall, svo munar einu marki.
Leikurinn í dag var jafn og spennandi. Gestirnir komust yfir strax á 2. mínútu og mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik. Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleiknum, bæði liðin áttu álitlegar sóknir en tókst ekki að koma boltanum í netið.
Á 80. mínútu fengu Ægismenn svo vítaspyrnu þegar brotið var á Ragnari Páli Sigurðssyni innan teigs. Nemanja Lekanic fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi.
Síðustu tíu mínúturnar opnaðist leikurinn talsvert þar sem bæði lið ætluðu sér sigur og á 89. mínútu tókst KFG að koma boltanum aftur í netið og tryggja sér sigurinn.