Ægismenn tryggðu sér í dag sæti í 3. deild karla í knattspyrnu að ári með öruggum 3-0 sigri á Kormáki/Hvöt á Þorlákshafnarvelli.
Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli á Blönduósi þannig að Ægir sigraði samtals 4-1 í einvíginu.
Minnkaði stressið að skora strax
„Þetta var fáránlega gott í dag. Við vorum mjög sannfærandi í dag og þetta var betri leikur en fyrir norðan. Við vissum lítið um andstæðinginn fyrir einvígið en við vorum algjörlega tilbúnir í þetta í dag. Þetta gekk allt eins og við vildum í dag, þetta var frekar þægilegt eftir fyrstu tíu mínúturnar og það minnkaði stressið hjá okkur að skora strax,“ sagði Þorkell Þráinsson, fyrirliði Ægis, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Ægisvörnin þétt
Ægismenn komust yfir strax á 2. mínútu í dag þegar boltinn datt fyrir Goran Potkozarac í teignum og hann skoraði af öryggi. Á 8. mínútu tvöfaldaði Pálmi Þór Ásbergsson forystu Ægis með glæsilegu marki. Þar með var mestu pressunni létt af Ægi en bæði lið fengu þó færi til að bæta við mörkum. Staðan var 2-0 í hálfleik og þrátt fyrir að Kormákur/Hvöt væri með boltann á löngum köflum í seinni hálfleik var Ægisvörnin þétt og gestirnir fengu ekki færi. Ægismenn voru mun nær því að bæta við mörkum en það tókst þó ekki fyrr en á 88. mínútu þegar Aco Pandurevic skoraði af öryggi úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Þorkeli í teignum.
Titill í boði á laugardaginn
Úrslitaleikur deildarinnar fer fram á laugardaginn og þar er í boði Íslandsmeistaratitillinn í 4. deild. Fyrirliði segir ekki annað koma til greina en sigur í þeim leik.
„Þetta er búið að vera mjög gott sumar hjá okkur. Við erum bara búnir að tapa einum leik en þar fyrir utan hefur þetta verið gott. Það verður bikar í Höfninni á laugardaginn, ég ætla að staðfesta það,“ sagði Þorkell kampakátur að lokum.