Hamar/Þór vann sinn fyrsta sigur í úrvalsdeild kvenna í körfubolta þegar liðið tók á móti Þór Akureyri í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur urðu 95-91.
Hamar/Þór skoraði fyrstu fjögur stigin en þá komu níu stig í röð frá Þór, sem hafði undirtökin það sem eftir lifði 1. leikhluta. Annar leikhluti var í járnum en Hamar/Þór lokaði honum frábærlega, með því að skora 14 stig í röð og fyrstu 4 í seinni hálfleik. Átján stiga sveifla og staðan orðin 49-41, þeim sunnlensku í vil.
Gestirnir náðu að komast yfir í 3. leikhluta, en Hamar/Þór svaraði jafn harðan og spennan var mikil á lokamínútunum. Hamar/Þór náði átta stiga forskoti þegar sex mínútur voru eftir en Norðankonur sóttu hart að þeim á endasprettinum. Munurinn var kominn niður í tvö stig þegar tæp ein og hálf mínúta var eftir en heimakonur kláruðu af krafti og sigruðu með fjögurra stiga mun.
Abby Beeman var allt í öllu í sóknarleik Hamars/Þórs, hún skoraði 39 stig, tók 9 fráköst og sendi 8 stoðsendingar. Hana Ivanusa skilaði sömuleiðis góðu framlagi, skoraði 20 stig og tók 8 fráköst.
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 39/9 fráköst/8 stoðsendingar, Hana Ivanusa 20/8 fráköst, Teresa Da Silva 17, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 8/7 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 5/5 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 4, Bergdís Anna Magnúsdóttir 2, Gígja Rut Gautadóttir 1 stoðsending.