Jóna Margrét Ragnarsdóttir, aðstoðarþjálfari Selfoss og fyrrum landsliðskona, lék sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í handbolta í tæp 11 ár þegar hún kom inná í viðureign Selfoss og ÍBV í úrvalsdeildinni í gær.
Selfyssingar voru í basli í sókninni í fyrri hálfleiknum og það munaði svo sannarlega um að fá Jónu Margréti inná í seinni hálfleiknum. Hún breytti sóknarleik liðsins, skoraði þrjú mörk og átti fimm stoðsendingar, og hafði mjög jákvæð áhrif bæði á samherja sína og stuðningsmenn liðsins. Selfoss sigraði að lokum 24-22.
Jóna Margrét verður 42 ára í mars næstkomandi og skórnir voru komir á hilluna fyrir löngu síðan en hún lék síðast með Stjörnunni árið 2014.
„Ég er búin að þjálfa hér á Selfossi síðan haustið 2023 og við erum búnar að vera í meiðslum og vandræðum núna þannig að ég ákvað að taka einn fyrir liðið. Ég er í ræktinni með geggjuðum hópi kvenna á morgnana og er bara í ágætis standi, hef verið með á einni og einni æfingu og er hægt og rólega búin að vinna í þessu,“ sagði Jóna Margrét í samtali við sunnlenska.is. Hún sló varla feilpúst í leiknum, spilaði sóknina en fékk að hvíla í varnarleiknum.
En var það planið fyrirfram að þú myndir spila tæpar 30 mínútur í leiknum?
„Við ræddum það fyrir leik að ef við yrðum í vandræðum þá kæmi ég mögulega inná í seinni hálfleiknum. Og ég var nú bara að vona að við yrðum ekkert í vandræðum svo að ég fengi frí. En það munar mjög miklu að hafa örvhentan leikmann fyrir utan og ég er gædd þeim forréttindum að vera örvhent. Það var geggjað að koma inná og frábær stemning í höllinni,“ sagði Jóna Margrét ennfremur.
„Þetta var fjögurra stiga leikur fyrir bæði lið og auðvitað Suðurlandsslagur. Við vissum að við værum að fara í hörkuleik en vorum aðeins að strögla framan af og klúðrum fimm dauðafærum í fyrri hálfleik. Munurinn var fimm mörk í hálfleik en þetta breyttist mikið í seinni hálfleiknum. Þegar við náðum að nýta færin okkar þá vorum við fljótar að saxa á forskotið þeirra,“ segir aðstoðarþjálfarinn og vill ekkert spá í það hvort hún spilar meira í vetur.
„Það verður bara að koma í ljós hvort ég spila fleiri leiki. Ég ætla að sjá til hvernig ég kem út úr þessu, ætli ég verði ekki svona viku að jafna mig,“ segir Jóna Margrét og hlær. „En þetta er bara skemmtilegt og gaman að hjálpa liðinu að ná tveim stigum.“