Selfyssingar unnu KV í lokaumferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu í dag á Jáverk-vellinum á Selfossi.
Það er óhætt að segja að það hafi verið nokkur haustbragur á leiknum og leikmenn tóku því rólega í sólinni á Selfossi, enda úrslitin í deildinni löngu ráðin, og spiluðu göngubolta á löngum köflum.
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill og markalaus og það var ekki fyrr en á 56. mínútu sem dró til tíðinda. Selfyssingar gerðu þrefalda skiptingu þegar leikurinn var stopp vegna aukaspyrnu og uppúr henni skoraði Jökull Hermannsson af stuttu færi. Þór Llorens tók spyrnuna og hún rataði beint á kollinn á varamanninum Reyni Frey Sveinssyni, sem skallaði fyrir á Jökul og lagði þar með upp mark með sinni fyrstu snertingu í leiknum.
KV átti margar ágætar sóknir í leiknum en Stefán Þór Ágústsson stóð vaktina vel í marki Selfyssinga og miðverðirnir Jökull og Þorsteinn Aron Antonsson voru sterkir. Sóknarþungi gestanna jókst nokkuð þegar leið á seinni hálfleikinn en Gonzalo Zamorano gerði út um allar vonir þeirra með marki úr skyndisókn á 80. mínútu.
Lokastaðan í deildinni er þannig að Selfyssingar ljúka leik í 9. sæti með 29 stig í þéttum pakka liða á miðri töflunni. Fylkir og HK fara upp í Bestu deildina en KV og Þróttur V féllu niður í 2. deildina.