Bikarævintýri Ægis í Þorlákshöfn lauk í kvöld þegar liðið tapaði í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu gegn Bestu-deildarliði KA á Akureyri, 3-0.
Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik og Ægismenn áttu fínar sóknir. KA menn fengu þó tvö hörkufæri undir lok fyrri hálfleiks en staðan var 0-0 í leikhléi.
Það sama var uppi á teningnum framan af seinni hálfleik en þegar á fór að líða þyngdust sóknir KA menna og markið lá í loftinu þegar ísinn loksins brotnaði á 76. mínútu.
Ægismenn náðu ekki að skapa nógu mikið til þess að svara fyrir sig og fengu tvö mörk í andlitið í uppbótartímanum, óverjandi glæsimark upp úr hornspyrnu og svo strax annað í andlitið mínútu síðar úr skyndisókn.
Það verða því KA menn sem verða í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin en 2. deildarlið Ægis getur gengið sátt frá borði eftir bikarævintýri sumarsins.