Afgreiddu leikinn á fyrsta korterinu

Valdimar Jóhannsson skoraði tvívegis fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sinn fyrsta leik í deildarbikar karla í knattspyrnu á þessu vori þegar liðið heimsótti ÍH í Skessuna í Hafnarfirði í kvöld.

Þeir vínrauðu gerðu út um leikinn á fyrsta korterinu. Aron Fannar Birgisson kom þeim yfir á fyrstu mínútu leiksins og í kjölfarið fylgdu tvö mörk frá Valdimari Jóhannsyni. ÍH minnkaði muninn á 31. mínútu og staðan í hálfleik var 1-3.

Seinni hálfleikurinn var markalaus allt þar til tíu mínútur voru eftir að ÍH minnkaði muninn í 2-3. Selfyssingar létu það ekki slá sig út af laginu og Elías Karl Heiðarsson bætti við marki í uppbótartímanum og tryggði Selfyssingum 2-4 sigur.

Selfoss er í 2. sæti riðilsins með 5 stig, stigi á eftir Haukum sem eru á toppnum og eiga leik til góða. ÍH á botninum án stiga.

Fyrri greinGestirnir tóku völdin í 4. leikhluta
Næsta greinStyrkir íþróttafólk um skó fyrir 13 milljónir króna