Frjálsíþróttasamband Íslands hefur farið af stað með hausthappdrætti til þess að efla enn frekar frjálsíþróttastarfið í landinu. HSK hvetur aðildarfélög frjálsíþróttaráðs HSK til að taka þátt í að þessari góðu fjáröflun.
Þau félög þegar hafa ákveðið að selja miða eru Dímon, Selfoss, Laugdælir, Þór og Vaka. Hver happdrættismiði kostar 1500 kr. og 600 kr. af hverjum miða renna til félagsins sem tekur að sér söluna.
Vinningarnir í happdrættinu eru 180 talsins og ekki af verri endanum en fyrsti vinningur er Chevrolet Spark bíll að andvirði 2.090.000 kr. Einnig eru vinningar frá t.d. Elko, Intersport, Krónunni, World Class, N1 og Hótel Eddu og svona mætti lengi telja. Með hverjum seldum miða fylgir einnig kaupaukamiði sem býður upp á afslátt hjá völdum fyrirtækjum þar sem sparnaður getur numið mun hærri upphæð en sem nemur verði happdrættismiðans.
Sérstakt söluátak verður nú um helgina og er íþróttaáhugafólk hvatt til að taka þátt í þessari fjáröflun frjálsíþróttahreyfingarinnar.