Selfoss byrjaði Íslandsmótið í knattspyrnu á sigri gegn Kára á útivelli á Akranesi. Hrvoje Tokic hélt upp á 30 ára afmælið í dag með því að skora þrennu í leiknum.
Selfyssingar voru sterkari í upphafi leiks og Tokic kom þeim í 0-1 á 13. mínútu þegar Káramenn gerðu slæm mistök og misstu boltann í vörninni. Selfoss hélt áfram að sækja og átti góð færi en á 25. mínútu braut Þormar Elvarsson klaufalega af sér inni í vítateig og Káramenn fengu vítaspyrnu sem þeir jöfnuðu úr.
Í kjölfarið áttu Káramenn mjög hættuleg færi en Kenan Turudija kom Selfyssingum aftur yfir á 35. mínútu þegar Þorsteinn Aron Antonsson skallaði boltann fyrir fætur hans í vítateignum. Staðan var 1-2 eftir mjög fjörugan fyrri hálfleik.
Gamanið hélt áfram í seinni hálfleik og þá voru Káramenn fyrri til að skora en þeir jöfnuðu 2-2 með glæsimarki á 52. mínútu. Tíu mínútum síðar afgreiddi Tokic boltann glæsilega í netið eftir langt innkast Adams Arnar Sveinbjörnssonar og flikk frá Arnari Loga Sveinssyni.
Fjórum mínútum síðar fengu Selfyssingar vítaspyrnu þegar einn leikmanna Kára handlék boltann inni í vítateig. Tokic fór á punktinn og skoraði af öryggi, 4-2. Færin voru ekki mörg eftir þetta en hiti og tilþrif í leiknum. Káramenn minnkuðu metin í 3-4 í uppbótartímanum og þar við sat.