Agla Íslandsmeistari

Agla Ólafsdóttir með gullverðlaunin. Ljósmynd/Aðsend

Íslandsmót Judosambands Íslands var haldið í sal judodeildar Ármanns í Laugardal þann 12. apríl síðastliðinn. Þátttaka var mjög góð en keppendur voru 110 í hinum ýmsu aldurs- og þyngdarflokkum.

Tveir keppendur mættu til leiks frá Judofélagi Suðurlands, þau Agla Ólafsdóttir og Arnar Helgi Arnarsson og gekk þeim vel.

Agla keppti í flokki U18 og vann gullverðlaun í sínum þyngdarflokki og varð þar með Íslandsmeistari í fyrsta sinn og örugglega ekki það síðasta. Þá keppti Agla upp fyrir sig í aldursflokki undir U21 og tók þar silfurverðlaun. Býsna góður dagur hjá Öglu.

Arnar Helgi keppti í þetta skipti í flokki +100 kg og náði 3. sæti.

Fyrri greinSelfoss jafnaði metin
Næsta greinTónar, bragð og hefðir á fjölmenningarhátíð á Hvolsvelli